Frá fyrsta ritstjóra

 

Nú hefur göngu sína nýtt vefrit, Skrína, sem gefin er út af Landbúnaðarháskóla Íslands, Hólaskóla, Landgræðslu ríkisins, Matís, Matvælastofnun (Mast), Skógrækt ríkisins og Veiðimálastofnun.

Mikil gróska hefur verið í rannsókna- og þróunarstarfi á sviði landbúnaðar- og umhverfisvísinda á síðustu árum, sem meðal annars má rekja til aukningar á rannsóknatengdu framhaldsnámi við innlenda háskóla. Jafnframt hafa aukist kröfur um að niðurstöður rannsókna séu birtar á viðurkenndum, ritrýndum vettvangi. Á undanförnum árum hafa íslenskir vísindamenn í vaxandi mæli birt niðurstöður sínar í alþjóðlega viðurkenndum tímaritum. Einnig hefur Icelandic Agricultural Sciences verið samþykkt inn í ISI-grunninn og flokkast sem fyrsta flokks vísindarit. Hins vegar hefur vantað vettvang á íslensku fyrir þau fræðasvið er tengjast landbúnaði á einn eða annan hátt og er Skrínu ætlað að bæta úr því

Boðið er upp á að birta í Skrínu bæði ritrýndar fræðigreinar—sem eru lesnar af einum eða fleiri ritstjórnarmeðlimum og ritrýndar af a.m.k. tveimur sérfræðingum á viðkomandi sviði—og ritstýrðar greinar, sem eru, fyrir utan almennan handritalestur, lesnar af a.m.k. tveimur ritstjórnarmeðlimum. Verða þessar gerðir greina merktar sérstaklega. Hægt verður að senda inn greinar á öllum tímum árs, en einnig verður gefinn kostur á því að birta sérhefti í tengslum við ráðstefnur eða um einstaka greinaflokka. Meðal annars er stefnt að því að árlega verði gefið út sérhefti Skrínu í tengslum við vísindaþing landbúnaðarins, LANDSÝN. Kemur sú útgáfa að einhverju leyti í staðinn fyrir rit Fræðaþings landbúnaðarins, sem gefið hefur verið út um árabil og hefur verið mikið notað.

Skrína verður öllum opin, sem tryggir ekki aðeins aðgang fræðasamfélagsins að niðurstöðum rannsókna sem þar eru birtar, heldur og alls almennings. Er það í samræmi við hugmyndafræði sem nú ryður sér víða til rúms, að niðurstöður rannsókna sem unnar eru fyrir almannafé eigi að vera öllum aðgengilegar.
Fyrir hönd ritstjórnar og þess hóps sem stendur að Skrínu hvet ég fræðimenn og annað fagfólk á sviði auðlinda-, landbúnaðar- og umhverfisvísinda að nýta þennan nýja vettvang vel, þannig að Skrína verði öflugur vettvangur fræðilegrar og faglegrar umræðu og styrki rannsóknar- og þróunarstarf á þessu sviði.

Keldnaholti, febrúar 2014

Ása L. Aradóttir, ritstjóri